Stjórnvöld víða um heim hafa, líkt og íslensk, gripið til ýmis konar aðgerða til að reyna að bjarga fyrirtækjum fyrir horn meðan á heimsfaraldri kórónuveirunnar stendur en þó sumum finnist of mikið gert eru háværari raddirnar sem segja að ekki sé nóg að gert.

Þrátt fyrir slíka gagnrýni hefur bandaríska veitingakeðjan Shake Shack ákveðið að skila 10 milljón dala, eða andvirði tæplega 1,5 milljarða íslenskra króna, lánveitingu sem félagið fékk sem hluta af aðgerðarpakka stjórnvalda þar í landi.

Stuðningspakkinn þar í landi nemur andvirði 349 milljörðum Bandaríkjadala, en lánið var hluti af launaverndaráætlun (PPP) sem Smáfyrirtækjastofnunin svokallaða heldur utan um.

Í síðustu viku kláruðust þeir peningar, en töluverð gagnrýni hefur komið fram um hvernig þessum fjármunum var deilt niður á fyrirtæki, þá sérstaklega í tilfellum þegar stórar keðjur í veitingahúsa- og hótelgeiranum sem oft eru með hlutabréf skráð í kauphöllum hafa fengið fjármunina.

Randy Garutti, forstjóri eins þeirra, Shake Shack, en hlutabréf þess eru skráð í kauphöllinni í New York, sem og stjórnarformaðurinn Danny Meyer birtu opið bréf þar sem þeir sögðu ástæðuna fyrir því að þeir hefðu skilað láninu þá að félagið hefði aðgang að fjármagni sem önnur félög hefðu ekki.

Sagðist félagið búast við því að geta safnað 75 milljón dölum frá fjárfestum með hlutabréfaútboði, en forystumenn fyrirtækisins gagnrýndu einnig PPP áætlunina, og sögðu hana ekki henta mörgum veitingastöðum því væri einstaklega ruglandi.

Þrátt fyrir að hafa skilað fénu kalla þeir eftir því að meiri peningur verði settur í áætlunina, ásamt fleiri atriðum sem þeir telja að þurfi að laga, sem nánar má lesa um í frétt CNN .