Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur í kjölfar niðurstöðu sérstakrar valnefndar tilkynnt um skipan í embætti sýslumanna. Samkvæmt nýjum lögum verður sýslumannsembættum fækkað í níu úr 24 áður. Munu ný embætti sýslumanna taka til starfa um næstu áramót.

Sýslumenn eru eftirtaldir:

Sýslumaður á Suðurlandi: Anna Birna Þráinsdóttir
Sýslumaður í Vestmannaeyjum: Lára Huld Guðjónsdóttir
Sýslumaður á Austurlandi: Lárus Bjarnason
Sýslumaður á Norðurlandi eystra: Svavar Pálsson
Sýslumaður á Norðurlandi vestra: Bjarni G. Stefánsson
Sýslumaður á Vestfjörðum: Jónas Guðmundsson
Sýslumaður á Vesturlandi: Ólafur K. Ólafsson
Sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu: Þórólfur Halldórsson
Sýslumaður á Suðurnesjum: Ásdís Ármannsdóttir

Í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu segir innanríkisráðherra að með sameiningu sýslumannsembætta verði til stærri, hagkvæmari og öflugri rekstrareiningar. Hún segir jafnframt að það sé afar ánægjulegt að svo öflugur hópur einstaklinga taki að sér þessi mikilvægu embætti.