Yfirhönnuði farsímahluta Samsung var sparkað í síðustu viku og var undirmaður hans settur við stýrið í vikunni. Forstöðumaðurinn fyrirverandi heitir Chang Dong-hoon. Stjórn tæknifyrirtækisins mun hafa verið óánægt með störf hans, ekki síst fyrir þær sakir að nýjasti síminn úr smiðju Samsung, Galaxy 5 sem nýverið kom á markað, hefur selst minna en vænst var. Við starfinu hefur tekið Lee Min-hyouk, en hann hefur unnið sér það til frægðar að hafa hannað Samsung Galaxy 3.

Eins og Reuters-fréttastofan greinir frá málinu er talsvert meiri ánægja með störf Min-hyouk, en Samsung Galaxy 3 veitti Samsung aðgöngumiða í samkeppninni við bandaríska tæknitröllið Apple árið 2010. Samsung selur nú tvöfalt fleiri farsíma en Apple. Það skrifast einkum á Galaxy-línuna.

Reuters segir að þótt innvolsið í nýjasta Galaxy-símanum sé flott og veki athygli þá gegni öðru máli um hönnunina á símanum sem láti hann líta út fyrir að vera í ódýrari kantinum.