Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Kú, hefur sagt sig úr stjórn DV og um leið stjórnarformennsku í félaginu.

„Maður hefur takmarkaða orku til að standa sjálfur í rekstri og bjarga um leið öðru fyrirtæki,“ segir Ólafur í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það hefur tekist að snúa rekstri DV við og það horfir til betri tíma hjá félaginu.“

Ólafur á tæplega 6% hlut í DV en aðspurður segist hann gera ráð fyrir því að selja hann á einhverjum tímapunkti. Lilja Skaftadóttir Hjartar og Eiríkur Grímsson hættu jafnframt í stjórninni.

Þorsteinn Guðnason er nýr stjórnarformaður DV en hann á um 9% hlut í félaginu. Þau Elín Guðrún Ragnarsdóttir, bókaútgefandi og fv. framkvæmdastjóri Birtings, Guðmundur Jón Sigurðsson, eigandi Meiriháttar ehf., Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, blaðamaður DV og Reynir Traustason, ritstjóri DV skipa nú stjórn ásamt Þorsteini.