Grímur Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Milestone, hefur höfðað mál á hendur embætti sérstaks saksóknara. Markmiðið með málshöfðuninni er að fá embættið til að afhenda gögn úr rannsókn sem tengjast Milestone. Sérstakur saksóknari hefur neitað að afhenda gögnin. Gögnin varða m.a. Vafningsmálið svokallaða.

Í Fréttablaðinu í dag segir að skiptastjóri þrotabús Milestone hafi höfðað um tug mála, meðal annars gegn þeim Karli, Steingrími  og Ingunni Wernersbörnum til að fá ýmsum viðskiptum og greiðslum rift. Til að liðka fyrir rekstri málanna fór Grímur fram á það við sérstakan saksóknara að hann fengi afhent öll gögn úr rannsóknum sem tengdust Milestone. Ekki er aðeins um að ræða gögn sem lagt var hald á í húsleitum hjá Milestone og þegar hafa verið afhent, heldur einnig afrit af skýrslutökum, tölvupóst, samantektir rannsakenda og fleira.

Blaðið segir Grím vísa í 82. grein gjaldþrotalaga, sem kveður m.a. á um að opinberum stofnunum sé „skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni búsins sem hann krefst“.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir beiðnina býsna víðtæka. Ágreiningurinn standi um það hversu vítt beri að túlka þetta ákvæði og líti embættið svo á að ákvæðið eigi ekki við um gögn sakamála.