MP Banki hefur boðað til hluthafafundar á morgun, föstudag. Til stóð að hluthafar myndu kjósa um að skipta MP Banka upp í tvennt, annars vegar MP Banka og hins vegar fjárfestingarfélag í eigu núverandi hluthafa bankans, á fundinum. Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að uppskiptingin sé ekki tilgreind á dagskrá fundarins sem send var út til hluthafa. Þar kemur fram að á fundinum verði farið yfir alla gjörninga sem áttu sér stað milli MP Banka og Byrs á undanförnum árum, en Byr er á meðal stærstu eigenda MP í dag.

Stefnt hafði verið að því að klára skiptingu bankans fyrir 28. febrúar, eða á mánudag. Af því verður þó líkast til ekki. Stjórn bankans hefur þegar undirritað samkomulag þess efnis við hóp fjárfesta undir stjórn Skúla Mogensen, Þorsteins Más Baldvinssonar og nokkurra íslenskra lífeyrissjóða. Samkomulagið var undirritað með fyrirvara um frekari áreiðanleikakönnun á stöðu bankans, samþykki FME á gjörningnum og að hluthafafundur MP Banka myndi samþykkja hann.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að erfiðlega gangi fyrir stjórnendur lífeyrissjóðanna að fá stjórnir þeirra til að samþykkja aðild sjóðanna að nýjum hluthafahópi MP. Þeir vonist þó enn til þess að viðskiptin gangi eftir.