*

föstudagur, 29. maí 2020
Innlent 4. maí 2019 19:03

Skiptir Icelandair yfir í Airbus?

Langtímaflotastefna Icelandair Group er til endurskoðunar og eru þrjár sviðsmyndir til athugunar.

Ritstjórn
Boeing 737 Max.
vb.is

Allar 737 Max vélar frá Boeing voru kyrrsettar í mars eftir að tvö mannskæð flugslys urðu með fimm mánaða millibili í Indónesíu og Eþíópíu.

Kyrrsetning Boeing 737 Max flugvélanna hefur haft mikil áhrif á Icelandair Group. Í fyrra tók félagið þrjár vélar af þessari tegund í notkun og á þessu ári hugðist það taka sex til viðbótar í notkun. Samkvæmt langtímastefnu félagsins átti síðan að taka sjö 737 Max vélar í notkun á árunum 2020 og 2021. Samtals eru þetta 16 Boeing 737 Max flugvélar.

Icelandair gerði ráð fyrir tæplega 21 þúsund flugferðum í sumar, eða frá apríl til október. Þar af átti að nota 737 Max vélarnar í 6.100 ferðum eða 29% af flugferðum yfir í sumarvertíðina. Félagið hefur brugðist við kyrrsetningu vélanna með því að leigja tvær Boeing 767 breiðþotur og eina Boeing 757-200 vél. Þrátt fyrir þetta tilkynnti félagið í gær að sætaframboð til 15. júlí myndi dragast saman um 2%.

Langtímaflotastefna Icelandair Group byggir á 737 Max vélum því árið 2013 gerði félagið samning um kaup á 16 vélum og því til viðbótar hefur félagið kauprétt á 8 slíkum vélum til viðbótar.

Í uppgjörstilkynningu sem Icelandair Group sendi frá sér í gær kemur fram að langtímaflotastefna félagsins sé til endurskoðunar. Þrjár sviðsmyndir eru til athugunar:

  • Halda óbreyttri flotastefnu.
  • Hraðari endurnýjun flotans. Airbus A321NEO teknar inn í flotann og reknar samhliða B737 MAX vélunum. Fækkun B757-200 véla hraðað með Airbus og B737MAX viðbótum í flotann.
  • Hraðari endurnýjun flotans með Airbus flugvélum Allar Boeing vélar teknar úr rekstri næstu ár og einungis Airbus þotur reknar í flotanum.

Í tilkynningunni kemur fram að gert sé ráð fyrir því að niðurstöður þessarar endurskoðunar liggi fyrir í haust.

Icelandair Group birti í gær uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung 2019, þar sem fram kom að félagið hafði tapað 55,1 milljón dollara á ársfjórðungnum eða um 6,7 milljörðum króna. Enn fremur kom fram að tekjur hefðu dregist saman um 7% á milli ára en þær námu 248,6 milljónum dollara nú samanborið við 267,6 á sama tíma í fyrra.

Stikkorð: Icelandair Group Boeing Airbus