Skiptum á búi City Star Airlines ehf. í Reykjavík lauk 9. apríl síðastliðinn. Þar með lauk endanlega einum kafla í flugsögu Íslendinga, en þetta félag var hluti af sögu Landsflugs sem stundaði áætlunarflug til Vestmannaeyja, Hornafjarðar, Sauðárkróks, Bíldudals og Gjögurs á árunum 2004 til 2006.

Ekkert fékkst greitt upp í almennar eða eftirstæðar kröfur í rúmlega 60 milljóna króna gjaldþroti félagsins. Hins vegar greiddust 97,8% upp í tæplega 11,5 milljóna króna forgangskröfur. Ekkert fékkst heldur upp í almennar kröfur í 31 milljóna króna gjaldþroti Landsflugs sem tekið var til gjaldþroatskipta í janúar 2009. Skiptum á því búi lauk 17. apríl 2009.