Skiptum er lokið á eignarhaldsfélaginu Kreuzberg Investmens. Það var tekið til gjaldþrotaskipta í mars á þessu ári og lauk þeim í júní. Félagið hóf rekstur árið 2006 og átti fasteignir í Berlín í aðdraganda hruns.

Fjórir eigendur voru skráðir fyrir jöfnum hlut í félaginu í lok árs 2008. Það voru þeir Bernhard Bogason, sem var forstöðumaður skatta- og lögfræðisviðs FL Group á sama tíma og hann átti fjórðungshlut í Kreuzberg Investments, þ.e. á árunum 2006 til 2009 en er nú lögmaður hjá Nordik; Hrannar Hólm, fyrrverandi framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og einn eiganda Capacent; Skúli Þór Gunnsteinsson, fyrrverandi forstjóri og einn eigenda Capacent og Steingrímur Davíðsson, húðsjúkdómalæknir.

Verðmæti fasteigna félagsins nam 57,5 milljónum króna samkvæmt síðasta birta ársreikningi Kreuzberg Investments fyrir árið 2008. Heildareignir námu svo til sömu fjárhæð. Á móti námu skuldir 92,7 milljónum króna. Þar af námu skuldir gagnvart lánastofnunum 73 milljónum króna. Eigið fé var neikvætt um tæpar 32,5 milljónir króna. Í Lögbirtingablaðinu í dag kemur fram að engar eignir hafi fundist í þrotabúinu á móti kröfum. Almennar kröfur voru ekki háar, rúmar 2,6 milljónir króna frá Tollstjóranum í Reykjavík.

Ekki náðist í Jón G. Briem, skiptastjóra Kreuzberg Investments. Fram kom í samtali DV við Bernhard í ágúst í fyrra að félagið hafi haft eitt fasteignaverkefni á sinni könnu í Berlin. Landsbankinn hafi lánað fyrir verkefninu. Árið 2009 hafi fasteignin verið seld og allar skuldir borgaðar. Samkvæmt umfjöllun blaðsins sat Bernhard í stjórnum nokkurra fasteignafélaga Íslendinga í Berlín auk þess að eiga hlut í fasteignafélagi sem á Admiralpalast-leikhúsið í Berlínarborg.