Ekkert fékkst upp í 5,7 milljarða kröfur í þrotabú eignarhaldsfélagsins Nýrækt ehf. Skiptum á búinu lauk um miðjan nóvembermánuð.

Stórt gjaldþrot félagsins má rekja til hlutabréfakaupa í Kaupþingi skömmu fyrir hrun. Fram að því hafði félagið eingöngu starfað á markaði grænmetis.

Nýrækt var í eigu Eignarhaldsfélagsins Mata og Sundagarða, en stærsti eigandi Mata var Gísli V. Einarsson og fjölskylda með um 85% hlut. Í stjórn félagsins sátu þeir Gunnar Þór Gíslason og Eggert Árni Gíslason.

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis er fjallað um viðskipti Nýræktar. Félagið fékk lánsheimild hjá Kaupþingi í mars 2008 að fjárhæð 3,8 milljarða króna. Í sama mánuði keypti félagið hlutabréf í bankanum fyrir 3,6 milljarða. Við fall Kaupþings var nafnvirði bréfanna 5 milljónir króna.

Nokkuð hefur verið fjallað um starfsemi Nýræktar í DV og kemur fram að hlutabréfakaupin séu til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.

Nafninu breytt

Nýrækt var stofnað árið 1996 og starfaði eins og áður segir við grænmetisræktun. Nafni félagsins var þó breytt um sama tíma og það fjárfesti í Kaupþingi og hét þá Fjárfestingarfélagið Mata. Nafninu var aftur breytt í Nýrækt í október sama ár.

Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2007, sem er síðasti ársreikningur félagsins, var eigið fé í lok þess ár neikvætt um 37,6 milljónir króna. Afkoman það ár var neikvæð um 27,3 milljónir.