Samantektin, sem Gísli Freyr Valdórsson er ákærður fyrir að leka, var vistuð á opnu drifi í Innanríkisráðuneytinu og aðgengileg öllum starfsmönnum ráðuneytisins, um 80 að tölu.

Þetta kemur fram í greinargerð Gísla sem lögð var fram í héraðsdómi í morgun.

Í greinargerðinni segir að samantektin hafi síðast verið skoðuð kl. 05:39 aðfaranótt 20. nóvember 2014. Þá hafi enginn starfsmaður verið kominn til vinnu. Skjalið virðist því hafa verið skoðað utan úr bæ.

Þar segir einnig að ákærði hafi ekki fjaraðgang í tölvu sinni, svokallaða VPN-tengingu, og því hafi hann aðeins getað skoðað drifið sem skjalið var á í ráðuneytinu sjálfu.

Í greinargerðinni segir orðrétt um þetta:

„Þrátt fyrir að þetta atriði staðfesti, svo ekki verður um villst, að samantektin var skoðuð af einhverjum öðrum en ákærða í skjóli nætur og utan veggja IRR þá virðist það ekki hafa verið rannsakað frekar. Telur ákærði þetta vera til marks um að allt kapp hafi verið lagt á að á fella sök á hann í stað þess að rannsaka atriði sem renna stoðum undir sýknu hans.“