„Það er ekki nóg að sekta félögin sjálf, heldur verða stjórnendur og stjórnir brotlegra fyrirtækja að vera ábyrg gjörða sinna. Ef stjórnendur eru ekki sóttir til saka er fælingarmáttur samkeppnislaganna ekki nægilega mikill og líklegra en ella að freistast sé til að beita ólöglegum aðferðum.“ Svo segir í yfirlýsingu frá Kortaþjónustunni vegna úrskurðar Samkeppniseftirlitsins vegna ítrekaðra brota Valitor á samkeppnislögum. Valitor hefur fengið á sig sekt upp á 500 milljónir króna vegna þessa.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins segir m.a. að Valitor hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust að keppinautum á markaði auk þess að brjóta gegn skilyrðum sem fyrirtækið hafði skuldbundið sig til að virða.

Í yfirlýsingu Kortaþjónustunnar segir að lögbrot Valitors hafi skaðað Kortaþjónustuna fjárhagslega og gert stöðu fyrirtækisins á markaðnum lakari en ella. Kortaþjónustan segir ólíðiandi að sitja undir endurteknum lögbrotum af hálfu keppinautar og áskilur sér rétt til að fara fram á skaðabætur.