Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skoða nú hvernig unnt er að fjármagna nýjan spítala. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Bjarni sagði ekki tímabært að úttala sig um það hvernig fjármögnunin yrði. Í fljótu bragði sæi hann ekki möguleika á því að selja eignir til að fjármagna spítalann. Tekjur vegna sölu á hlut í Landsbankanum yrðu notaðar til að greiða skuldir.

Ríkið á 98% hlut í Landsbankanum og í fjárlagafrumvarpi næsta árs kemur fram að stefnt sé að því að selja 30% eignarhlut á næstu tveimur árum.  Orð Bjarna rýma við það sem kemur fram í frumvarpinu en þar segir að nýta eigi fjármagnið til að greiða niður lán sem tekin hafi verið vegna endurfjármögnunar fjármálastofnana í kjölfar hrunsins.

Bjarni sagði í fréttum RÚV að ekki sé unnið markvisst að því að selja hlut í Landsvirkjun.