Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, telur að meta þurfi aðstæður hér á landi í kjölfar hryðjuverkaárásanna sem framdar voru í París í gærkvöldi og kostuðu yfir 120 manns lífið. Þetta kemur fram á vef RÚV .

„Manni bregður auðvitað alveg svakalega að sjá þetta gerast eins og öllum sem að fylgjast með þessu og þetta eru auðvitað hryðjuverk sem eru annarrar gerðar en við höfum séð áður í nágrannalöndnum þar sem margir menn á mismunandi stöðum hefja í rauninni bara stríð á götum Parísar og þessi fjöldi sem er fallinn nú þegar er það mikill að maður á erfitt með að taka þetta inn,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Auðvitað óttast maður að þetta geti breytt því hvernig við lifum hérna á Vesturlöndum að þetta dragi úr öryggi okkar og verði til þess að hlutir sem við töldum jafnvel sjálfgefna verði það ekki lengur.“

Viðbragsáætlun var sett í gang hér á landi í gærkvöld þar sem lögreglan setti sig í samband við lögreglu í nágrannalöndunum til að meta hvort hætta sé á slíkum hryðjuverkum annars staðar, eða hér á landi. Matið er að ekki sé yfirvofandi hætta hér á landi núna en menn muni í framhaldinu meta hvort þessi árás hafi breytt aðstæðum hér og með hvaða hætti þyrfti að vera viðbúinn.

„Ég geri ráð fyrir að ég muni hitta innanríkis- og utanríkisráðherra á fundi ásamt lögreglu þar sem að við munum í framhaldinu skoða það hvort þetta kalli á einhverjar ráðstafanir af okkar hálfu,“ segir Sigmundur.