Heildarkostnaður við fyrsta áfanga álversins í Helguvík sem skóflustunga var tekin að á föstudag nemur um 70-80 milljörðum króna.

Eigendur þess, Norðurál sem er dótturfélag Centyry Aluminium, gera sér vonir um að áætluð útflutningsverðmæti geti að honum loknum numið um 35 milljörðum á ári, miðað við núgildandi heimsmarkaðsverð á áli.

Þrátt fyrir skóflustunguna og að fyrstu framkvæmdir á lóð fyrirhugaðs álvers séu hafnar hefur álverið ekki enn fengið starfsleyfi.

Gert er ráð fyrir að starfsmenn verði um 400 talsins. Fyrirhugað álver mun losa 365 þúsund tonn á ári af koltvísýringi (CO2) og um 35 þúsund tonn á ári af CO2-ígildum, þ.e. flúorkolefnum, en ekki hefur enn verið lögð fram umsókn um losunarkvóta vegna þeirra.

Framkvæmdatíminn er fyrirhugaður 6-8 ár og reiknað með að álverið verði byggt í áföngum. Stefnt er að því að taka fyrsta áfanga í notkun árið 2010 og að árið 2015 geti það framleitt allt að 250 þúsund tonn af áli á ári. Óljóst er hvert annar áfanginn sækir sér orku.

Undirbúningsframkvæmdir á lóð fyrirtækisins eru hafnar sem fyrr segir og byggingarframkvæmdir við kerskála hefjast á þessu ári. Framkvæmdirnar fela m.a. í sér aðstöðusköpun á vinnusvæðinu, jarðvinnu, uppsteypu, forsteyptar einingar, stálvirki, klæðningar og ýmsan frágang.

Tímasetning framkvæmda sögð hentug vegna samdráttar

Jafnframt því að skóflustungan var tekin á föstudag undirrituðu forsvarsmenn Norðuráls og Íslenskra aðalverktaka samning um byggingu kerskála fyrir álverið.

Gert er ráð fyrir álverið verði eingöngu knúið með  raforku sem framleidd verður með jarðvarma, og verður það þá fyrsta sinnar tegundar sem svo er ástatt um. Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, lýkur lofsorði á samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja í tilkynningu frá fyrirtækinu.  Þá segir hann:

„Miklar kröfur eru gerðar til okkar, t.d. í umhverfismálum og útlitshönnun, en það hefur verið gaman að vinna að lausnum á slíkum málum með heimafólki.”

Gunnar Sverrisson, forstjóri Íslenskra aðalverktaka, segir verkefnið í Helguvík koma á góðum tíma fyrir byggingariðnaðinn og íslenskt samfélag í kjölfar samdráttar í byggingariðnaði og stórframkvæmdum.