Stjórnvöld í Skotlandi hafa fallið frá metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum fyrir árið 2030 eftir að loftslagsnefnd breskra stjórnvalda sagði að ekki væri tækt að ná markmiðunum að gefnum árangri síðustu ára.

Skosk stjórnvöld höfðu sett sér það markmið að frá og með árinu 2030 yrðu þau búin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 75% samanborið við losun þar í landi árið 1990. Jafnframt var stefnt að því að árið 2045 yrðu þau búin að ná markmiðum um kolefnishlutleysi.

Í umfjöllun Financial Times er málið sagt hið neyðarlegasta fyrir skosk stjórnvöld en Nicola Sturgeon, fyrrum forsætisráðherra Skotlands, lýsti á sínum tíma loftslagsmarkmiðunum sem leiðandi á heimsvísu.

Markmið skoskra stjórnvalda fyrir árið 2030 voru umfram markmið breskra stjórnvalda sem höfðu stefnt að 68% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda yfir sama tímabil.