Ef marka má fréttamiðla vestanhafs eru minnst sjö lögreglumenn sárir og þrír látnir eftir skotárás í bænum Baton Rouge í Louisiana. Bærinn hefur verið í brennidepli að undanförnu eftir að lögreglumenn á svæðinu skutu hinn 37 ára gamla Alton Sterling til bana á dögunum.

Samkvæmt fréttum barst lögreglunni tilkynning um dularfullan mann sem var á göngu meðfram Airline þjóðveginum með riffil. Þegar lögregla mætti á svæðið hóf hann að skjóta.

Ekki hefur fengist staðfest hvort árásarmaðurinn sé lífs eða liðinn en heimildir herma þó að hann sé látinn.