Aðspurður um hvort von sé á því að gjaldeyrishöftum verði lyft í fyrirsjáanlegri framtíð segir Mark Flanagan, fráfarandi yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS)  á Íslandi, að það gæti vel gerst á næstu mánuðum. „Við ráðfærum okkur reglulega við Seðlabankann um þetta mál og finnum að við erum á nákvæmlega sömu blaðsíðu og hann hvað það varðar. Hún er sú að það eru nokkur mikilvæg atriði sem þurfa að vera til staðar til að hægt sé að aflétta höftunum.

Í fyrsta lagi þarf greiðslujöfnuður að vera í lagi, sem þýðir að gjaldeyrisvaraforðinn þarf að vera nokkuð sterkur. Það er nauðsynlegt til þess að útflæði fjármagns við opnun á gjaldeyrismarkaðinum leiði ekki til einhliða þróunar á gengi gjaldmiðilsins.

Í öðru lagi þarf að ríkja stöðugleiki innan alþjóðlegra fjármálakerfa. Það má ekki opna gjaldeyrismarkaðinn ef þá skapast aðstæður sem leyfa innstæðum að flæða frá Íslandi til annarra landa. Í þriðja lagi skipta ríkisfjármálin máli.“

Aðstæður að skapast

Hann segir  góðu fréttirnar vera þær að þessar aðstæður séu að skapast. Greiðslujöfnuður sé betri og að Seðlabankinn hafi staðið sig vel við að bæta við gjaldeyrisvaraforðann með því að kaupa gjaldeyri á opnum markaði.

Því sé möguleiki á að hægt verði að stíga skref í afnámi hafta á næstu mánuðum. „Seðlabanki Íslands birti áætlun um afnám haftanna síðastliðið sumar sem byggir þó ekki á tímaramma. En ég held að það verði mögulega hægt að stíga skref í afnámi hafta á næstu sex mánuðum. Það þyrfti síðan að meta í kjölfarið hvernig það skref hefði gengið.“

Í Viðskiptablaðinu er ítarlegt viðtal við Flanagan. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .