Skrifað hefur verið undir samning um að verktakafyrirtækið Arnarfell ehf. á Akureyri sjái um framkvæmdir við Ufsarveitu fyrir 1911 milljónir króna. Verkið sem er í síðari verkhluta Kárahnjúkavirkjunar og felst í gerð 3,4 kílómetra jarðganga og inntaks í göng úr Ufsarlóni í Jökulsá í Fljótsdal ásamt því að leggja 13 kílómetra veg með bundnu slitlagi frá Laugafelli að Kelduá. Alls munu um 100 þúsund rúmmetrar af bergi og jarðvegi falla til við jarðgangagerðina.

Framkvæmdir við Ufsarveitu voru boðnar út og bárust tilboð frá fjórum fyrirtækjum og fyrirtækjahópum. Arnarfell átti lægsta tilboðið og var það 74% af kostnaðaráætlun en hún hljóðaði upp á 2.500 milljónir króna. Örn Marinósson, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, segir samninginn við Arnarfell vera góðan og hagstæðan því hér sé verið að semja um stórt verk undir kostnaðaráætlun við traustan verktaka sem Landsvirkjun hafi góða reynslu af.

Samningurinn um Ufsarveitu mun vera stærsta jarðgangaverkefni sem fyrirtæki, sem er alfarið í íslenskri eigu, tekst á hendur. Sigurbergur Konráðsson segir samninginn hafa gríðarlega þýðingu fyrir Arnarfell því hann geri fyrirtækinu kleift að halda áfram að sérhæfa sig í jarðgangagerð.

,,Við erum með þessu að hasla okkur völl á jarðgangamarkaðinum en það er stefna okkar að sérhæfa okkur í flóknari og erfiðari verkum. Við erum ákaflega ánægð með það traust sem Landsvirkjun sýnir Arnarfelli með því að fela okkur þetta verkefni en það er ákveðinn prófsteinn á getu okkar."


Arnarfell hefur starfað við virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka frá upphafi og vann meðal annars að gerð hjáveituganga í stíflustæðinu sem undirverktaki Impregilo. Starfsmenn hjá Arnarfelli hafa verið á bilinu frá 80 og upp í 150 þegar mest var síðasta sumar. Sigurbergur segist reikna með að fjöldinn þegar flest verður geti farið aftur í 150 manns.

Arnarfell ehf. er fjölskyldufyrirtæki í eigu systkinana Sigurbergs, Þórs, Bjarna, Sigríðar Pálu og Margrétar Konráðsbarna. Þau systkinin reka og stjórna fyrirtækinu en auk þeirra sitja í stjórn Arnarfells foreldrar þeirra, Konráð Vilhelmsson og Valgerður Sigurbergsdóttir.