Bandaríska greiningarfyrirtækið Stratfor, sem stundum hefur verið kallað „skuggaleyniþjónusta Bandaríkjanna“, gerir fund Ólafs Ragnars Grímssonar með erlendum sendiherrum að umfjöllunarefni í greiningu sinni í dag.

Greint er frá því að Ólafur Ragnar hafi að sögn gengið fram af sendiherrum helstu nágrannaríkja Íslands með því að láta í veðri vaka að Rússar gætu fengið aðstöðu á Keflavíkurflugvelli, þar sem Atlantshafsbandalagið á verulegra hagsmuna að gæta og á raunar talsverðan varnaviðbúnað og aðstöðu.

Höfundur greiningar Stratfor, Karim Sahib, ýjar að því að með þessu séu íslensk stjórnvöld að reyna að setja þrýsting á Vesturlönd fremur en hugur fylgi máli um að bjóða Rússum raunverulegt aðgengi að hernaðarlega mikilvægri aðstöðu gegn rúblum.

Í greiningunni er haft eftir fjölmiðlum að Ólafur Ragnar hafi skotið erlendum erindrekum skelk í bringu í fundinum hinn 7. nóvember með því að taka það fram að íslensk stjórnvöld þurfi að eignast „nýja vini“ á hinum alþjóðlega vettvangi. Í framhaldi af því reifar höfundur svo mikilvægi hnattstöðu Íslands í Kalda stríðinu, ekki síst sem hliðvörður Atlantshafsins, þar sem unnt var og er að fylgjast með ferðum rússneskra kafbáta milli norðurstranda Rússlands og hins opna Atlantshafs.

Í greiningunni er rækilega tíundað að leitin að „nýjum vinum“ sé meiriháttar stefnubreyting frá fortíð, en svo er rakið hversu skjótt veður hafi skipast í lofti. Íslenska hagkerfið sé í hræðilegum þrengingum eftir langvarandi góðæri síðusta ári og landið sé orðið táknmynd fyrir fórnarlamb hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu. Greinarhöfundur segir ónákvæmt að kalla frystar eigur skuldir en hins vegar sé hagkerfið að súpa seyðið af þeirri fráleitu fyrirætlan að gera 300 þúsund manna sjávarútvegshagkerfi að alþjóðlegu bankaveldi. Því finni ekkert ríki jafnillilega fyrir fjármálakreppunni.

Tilraun til betri samningsstöðu

Greinarhöfundur segir að íslensk stjórnvöld hafi þurft að fara á hnén gagnvart hinum Norðurlöndunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Skilmálar þeirra séu hins vegar ekki mjög hagstæðir og lánin reynst torsóttari en upphaflega var ætlað.

Þess vegna veltir höfundur upp þeim möguleika að hugsanlega og jafnvel skiljanlega megi túlka ummæli Ólafs Ragnars sem tilraun íslenskra stjórnvalda til þess að styrkja samningsstöðu sína gagnvart grönnum sínum og bandamönnum. Hann segir að Ísland sé hvorki beinlínis að leita að rúblum né að freista þess að stokka upp valdahlutföllum á Norður-Atlantshafi. Yfirboð Ólafs Ragnars um að „nýir vinir“ gætu fengið hernaðaraðstöðu hér á landi sé vísbending um að hann sé að leita að betri samningastöðu.

Ólíkt mörgum öðrum erlendum fréttaskýrendum áttar Sahib sig á því að forseti Íslands mótar ekki utanríkisstefnu landsins, heldur sé um valdalausa virðingarstöðu að ræða. Hann eigi þess því engan kost að fylgja orðum sínum eftir. Rússneski sendiherrann á Íslandi, Viktor Tartarinsev, sem var viðstaddur fundinn, hafi enda virst koma af fjöllum og sagt að þjóð sín hafi í raun og veru ekkert við flugstöð á Íslandi að gera.

Greiningu Stratfor lýkur á því að sem tilboð til Rússa hafi yfirlýsingar Ólafs Ragnars vægast sagt ekki verið trúverðugar. Markmiðið hafi nánast örugglega verið að skerpa á samningsstöðu sinni. Þau hafa uppskorið hneykslan og reiði hinna Norðurlanda, sem hafi einmitt verið tilgangur þeirra eða forsetans.

Segir orð sín oftúlkuð

Ólafur Ragnar var gestur Kastljóss Ríkissjónvarpsins í kvöld. Þar neitaði hann, aðspurður að upplýsa um viðræðurnar sem hann átti við sendiherrana og bar við sig trúnaði.

Í viðtalinu sagðist Ólafur Ragnar þó ekki hafa boðið Rússum afnot af Keflavíkurflugvelli og sagði orð sín af fundinum oftúlkuð.

Hann bætti því þó við að sú aðgerð Breta að beita ákvæði hryðjuverkalaga gegn Íslandi væri óásættanleg.