Skuld bókabúð flytur í Bókabúð Máls & menningar að Laugavegi 18 á næstunni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skuld en þar segir að með þessu sé verið að stórefla áherslu Bókabúðar Máls & menningar á erlendar bækur sem og viðskiptabækur en Skuld bókabúð hefur sérhæft sig í sölu viðskiptabóka frá upphafi.

Fram kemur að öll starfsemi Skuldar flytur í Bókabúð Máls & menningar, þar á meðal starfsemi bókaklúbba, sala til fyrirtækja, sérpantanir og samstarf við áhugahópa um ýmsar uppákomur og fræðslu.

Bókabúð Máls & menningar var á árum áður aðal bókabúðin í bænum og nú er verið að hefja hana upp á þann stall sem hún á skilið að nýju. Mér finnst mjög spennandi að taka þátt í því að skapa góða bókabúð sem veitir fagmannlega þjónustu í þægilegu umhverfi,“ segir Dögg Hjaltalín, eigandi Skuldar í tilkynningunni en hún mun sjá um bóksölu erlendra titla í Bókabúð Máls & menningar.

„Ég hef starfrækt verslun sem sérhæfir sig í sölu viðskiptabók á annað ár og ég sé mikla möguleika felast í því að vera hluti af stærri og öflugri bókabúð,“ segir Dögg.

„Ég hef fundið fyrir mikilli eftirspurn eftir viðskiptabókum sem og mikinn áhuga fyrir áhugaverðum erlendum bókum sem ég kem nú til með að bjóða upp á. Samstarfið við Bókabúð Máls & menningar gerir mér kleift á að bjóða upp á breiðara og fjölbreyttara úrval erlendra titla.“