Margir á skuldabréfamarkaði virðast líta svo á að líkur á vaxtalækkun á næstu mánuðum hafi minnkað vegna óvissu um yfirstjórn Seðlabanka næsta kastið og yfirvofandi kosningar til alþings í apríllok.

Í Morgunkorni Glitnis er bent á að línur í þeim efnum ættu þó að skýrast eftir endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun sjóðsins og yfirvalda á komandi vikum. Endurspeglast breyttar stýrivaxtavæntingar ekki hvað síst í þróun stysta ríkisbréfaflokksins, RIKB09, sem er á gjalddaga í júní næstkomandi. Ávöxtunarkrafa hans hefur hækkað úr 13,0% í 15,6% frá upphafi febrúarmánaðar til dagsins í dag, en að öðru jöfnu ætti ávöxtunarkrafan að endurspegla væntingar um stýrivexti næstu fjóra mánuði segir í Morgunkorni.