Skuldabréfaverð allra gömlu bankanna hækkaði á síðasta ári og var hækkunin veruleg hjá sumum þeirra. Skuldabréfaverð Landsbankans (LBI) og Icebank hækkaði um 120%, um 46% hjá Straumi, 43% hjá Glitni og um 13% hjá Kaupþingi samkvæmt upplýsingum frá Keldan.is.

Fjallað er um hækkanir síðasta árs í morgunpósti IFS Greiningar og segir að auknar endurheimtur eigna skýri almennt þá hækkun sem varð. „Ennfremur er sennilegt að hreint veðmál um að neyðarlögin haldi ekki fyrir dómstólum skýri hækkun Landsbankans, sem myndi gjörbreyta stöðu óveðtryggðra kröfuhafa. Einnig túlka skilanefndir svokölluð heildsölu- og peningamarkaðsinnlán með ólíkum hætti sem gæti minnkað forgangskröfur en aukið endurheimtur almennra kröfuhafa,“ segir í Morgunpósti.