Guðmundur Ingvi Sigurðsson, lögmaður skuldabréfaeigenda Wow air, segir að það kæmi honum ekki á óvart að skuldabréfaeigendurnir myndu skoða skuldabréfaútboðið og aðdraganda þess í hádegisfréttum RÚV . „Í ljósi stöðunnar að félagið fer í þrot eingöngu nokkrum mánuðum eftir að það lauk stóru skuldabréfaútboði þá finnst mér ekkert óeðlilegt við það að aðilar athugi hvort þetta hafi verið til dæmis nægjanlegt sem verið vara að óska eftir,“ segir Gumundur.

Hann bætir þó við að allt of snemmt sé að segja til um hvort ástæða sé fyrir skuldabréfaeigendur að leita réttar síns.

Sjá einnig: Þetta eru stærstu kröfuhafar Wow air

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær voru samþykki skuldabréfaeigenda Wow air um að breyta skuldum sínum í hlutafé með fyrirvara um að tækist að endurskipuleggja rekstur félagsins. Þeir munu því lýsa kröfum í þrotabúið líkt og aðrir þeir sem lánað höfðu Wow fé.

Óánægðir skuldabréfeigendur

Þó skuldabréfaeigendur hafi samþykkt að breyta kröfum í hlutafé voru ekki allir sáttir við þá ákvörðun. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins snýr óánægjan ekki síst að fjármununum sem lagðir voru til félagsins í skuldabréfaútboðinu 18. september. Stærð skuldabréfaútboðsins nam 50 milljónum evra, nærri 7 milljörðum króna. Upphaflega áttu fjármunirnir að duga til að brúa reksturinn næstu 18 mánuði. Þann 27. nóvember birti Wow svo tilkynningu um að fjárhagsstaða félagsins hefði versnað verulega og félagið ynni hörðum höndum að því að ná sér í frekari fjármögnun. Tveim dögum síðar var viðræðum Icelandair og Wow air slitið og Indigo Partners dregið að borðinu, meðal annars vegna þungrar skuldastöðu Wow air.

18 milljarðar milli kynningar og veruleika

Samkvæmt fjárfestakynningu Wow air var sem unnin var fyrir skuldabréfaútboðið var ráðgert að rekstrartap (EBIT) félagsins á árinu 2018 yrði 28 milljónir dollara, um 3,4 milljarðar króna. Í nóvember birti Wow hins vegar uppgjör fyrir fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins þar sem kom í ljós að rekstrartapið var 35,5 milljónir dollara, um 4,4 milljarðar króna. Því hafa vaknað spurningar um hvort stjórnendum Wow air hafi borið um að upplýsa skuldabréfeigendur sína um verri rekstrarafkomu félagsins í ljósi þess að einungis voru 12 dagar eftir af þriðja ársfjórðungi þegar skuldabréfaútboðinu lauk.

Í lok ársins varð niðurstaðan 179 milljónir dollara rekstrartap, nærri 22 milljarðar króna, meðal annars vegna taps á sölu fjögurra flugvéla til Air Canada. Rekstrartapið varð því meira en átján milljörðum króna meira á árinu 2018 en fjárfestum var kynnt í upphafi.