Deutsche Bank kynnti á sunnudag stórfellda endurskipulagningu og aðhaldsaðgerðir til þess að reyna að rétta af þennan risa á bankamarkaði, sem hefur verið á fallandi fæti að undanförnu. Þegar á mánudag mátti sjá tugi starfsmanna yfirgefa hinar og þessar starfsstöðvar bankans, líkt og sjá má að ofan, einkum utan Þýskalands. Menn hafa ekki séð slíkt síðan Lehman-bræður féllu hér um árið og kannski ekki að undra þó að sumir hafi óttast að þar sæjust fyrstu merki nýrrar fjármálakreppu.

Deutsche Bank er langstærsti banki Þýskalands, og hefur haft um 91.500 starfsmenn í 59 löndum á sínum snærum við fjölþætta fjármálaþjónustu.

Christian Sewing forstjóri kynnti á sunnudag að 2. ársfjórðungi lyki með 2,8 milljarða evra tapi, í fyrsta sinn frá 1993 yrði enginn arður greiddur út á árinu, bankinn myndi alfarið hætta hlutabréfamiðlun, minnka fjárfestingabankastarfsemi sína verulega, leggja 74 milljarða evra af eignum sínum í nýtt dótturfélag („slæman banka“) og segja upp um fimmtungi starfsmanna sinna á heimsvísu í von um að snúa við rekstrinum. Gert er ráð fyrir mikilli og frekari endurskipulagningu, sem alls muni kosta bankann um 7,4 milljarða evra út árið 2022.

Þar með er samt ekki ný fjármálakreppa yfirvofandi (án þess að dregið skuli úr hættu á henni). Deutsche Bank er enn vel gjaldfær, hann hefur nægt laust fé og rúllar ekki á næstunni. Hann á eignirnar í slæma bankanum og þýskir skattgreiðendur eru ekki í þann veginn að bjarga honum.

Fjármálakreppan stendur enn

Sennilega er réttara að segja að þessi tíðindi séu merki þess að síðasta fjármálakreppa sé enn ekki úr sögunni meira en 12 árum eftir að hún hófst.

Segja má að Deutsche Bank hafi verið í kröggum allt frá fjármálakreppunni 2007, en margvíslegar smáskammtalækningar til þess að styrkja hann hafa ekki borið árangur. Sewing og fyrirrennara hans mistókst einfaldlega hið gamalkunna rekstrarverkefni, að stilla kostnaði í hóf og auka tekjur.

Markaðurinn hefur raunar lengi vænst uppstokkunar hjá Deutsche Bank, enda lengi verið ljóst að ekki mætti mikið lengur við una til þess að koma rekstrinum í lag og endurreisa tiltrú á bankann. Sú tiltrú hefur dvínað ákaflega undanfarin ár, líkt og sjá má af myndritinu hér að neðan. Það birtist ekki aðeins í hlutafjárverðinu, jafnhræðileg og sú þróun hefur verið, heldur er auðvelt að greina hvernig stóraukin velta upp frá 2016 endurspeglar aukna taugaveiklun markaðarins vegna bankans.

Alls konar misgóðar tilraunir til þess að byggja upp trúverðugleika bankans hafa verið ráðgerðar eða reyndar síðastliðin ár, en engin þeirra hefur náð tilsettum markmiðum, enda engin gert útslagið um að laga reksturinn eða lánabókina í raun. Eftir að samrunafyrirætlanir við Commerzbank, sem þýska ríkisstjórnin stuðlaði að, runnu út í sandinn í apríl, var ljóst að ekki dygðu nein vettlingatök til þess að losa bankann úr þessum vandræðum. Þessar aðgerðir voru raunar mun stórtækari en flestir höfðu búist við, en samt eru greiningaraðilar mjög vantrúaðir á að Deutsche Bank auðnist að ná tilsettum markmiðum um að ná 8% hagnaði af efnislegum eignum árið 2022.

Heimsvaldastefnan gefin upp á bátinn

Með þessu er bankinn í raun að gefast upp á langvinnri sókn til þess að keppa við stórlaxana í Wall Street sem alþjóðlegur fjárfestingabanki, en það var Josef Ackermann, sem markaði þá braut þegar hann tók við bankanum í upphafi aldar. Á dögum peningagnóttar bóluhagkerfisins voru það miklir dýrðardagar, en um leið og sverfa fór að árið 2007 var það líka búið. Ackermann gerði engar tilraunir til þess að vinda ofan af því, það kom í hlut Sewings, sem tók við keflinu í fyrra, en hann var samt ekkert að flýta sér.

Segja má að til þess að verða alþjóðlegur fjárfestingabanki í fremstu röð séu mikil umsvif vestanhafs frumskilyrði, en þrátt fyrir ótal tilraunir hefur evrópskum bönkum öllum mistekist það, öllum nema hinum breska Barclays, sem þar náði fótfestu þegar hann hirti leifarnar af Lehman bræðrum fyrir smáaura þegar fjármálakreppan stóð sem hæst 2008. Sennilega má gera ráð fyrir að þeirri evrópsku sókn vestanhafs sé nú formlega lokið.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .