Skuldatryggingaálag (e. CDS) til fimm ára á skuldabréf gefin út af íslenska ríkinu hækkaði mikið í gær. Þegar liðið var á daginn, en fyrir lokun, var álagið komið í 137,1 punkt en hafði verið í 75,5 punktar daginn áður.

Dow Jones fréttaveitan sagði frá því fyrr um daginn í gær, þegar álagið var 117 punktar, að ástæður hækkunarinnar væru getgátur um að bankar landsins séu með mjög skuldsettar stöður í eignatryggðum fjármálagjörningum (e. securitized debt) og gætu þurft aukið fjármagn.

Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst var ekki um sambærilegar sviptingar með skuldatryggaálag íslensku bankanna að ræða.  Skuldatryggingaálag þýðir í raun sá kostnaður sem hlýst af því að verja skuldabréf gegn vanskilum. Síðastliðið sumar var skuldatryggingaálag íslenska ríkisins yfirleitt um 10 til 20 punktar, en viðskipti með þessa fjármálagjörninga hafa almennt verið mjög lítil. Álagið á skuldatryggingar ríkja sem Ísland ber sig helst saman við var í gær yfirleitt á bilinu 5 til 25 punktar.