Skuldatryggingaálag íslensku bankanna hefur heldur farið hækkandi á ný, eftir að hafa lækkað mjög um miðjan maí, þegar Seðlabankinn tilkynnti um norrænar lánalínur upp á 1.500 milljónir evra.

Sem kunnugt er setti Alþingi í síðustu viku lög sem heimiluðu ríkissjóði að taka á árinu 2008 lán fyrir allt að 500 milljörðum króna, til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð ríkisins og stöðu þess sem lánveitandi til þrautavara.

Í kjölfar tilkynningar um norrænu lánalínuna lækkaði álag á tryggingar Landsbanka úr 268 punktum niður í 185 (um 31%), Glitnis úr 428 niður í 375 (um 12%) og Kaupþings úr 481 punkti niður í 432 punkta (um 10%).

Álag á skuldatryggingar ríkissjóðs lækkaði sömuleiðis, úr 70 punktum í 63, eða um 10%. Á sama tíma lækkaði iTraxx-vísitalan reyndar líka, úr 59 punktum í 54 (um 8%), en hún mælir skuldatryggingaálag stærstu fjármálafyrirtækja heims.

Síðan þá hefur álagið hins vegar farið heldur hækkandi, sem fyrr segir, og er nú töluvert hærra en í lágmarkinu 19. maí.

Á sama tíma hefur iTraxx-vísitalan einnig hækkað, um 32%, á meðan álag á tryggingar Landsbankans hefur hækkað um 37% (253 punktar síðdegis í gær), Kaupþings 16% (503 punktar) og Glitnis um 22% (458 punktar).

Þannig hefur aftur dregið saman með Landsbanka og hinum bönkunum, en álag Landsbanka hafði áður lækkað mun meira en hinna frá hámarkinu 27. mars.