Tilboð fyrir skuldatryggingarálag (CDS) íslensku bankanna, sem hefur verið í hæstu hæðum að undanförnu, lækkaði umtalsvert í dag og meira en áður eru dæmi um. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Álag á Kaupþing er komið í 900 punkta og lækkaði um 86 punkta frá gærdeginum, álag á Glitni stendur einnig í 900 punktum (102 punkta lækkun) og álag Landsbankans er 700 punktar (144 punkta lækkun).

„Þessi mikla lækkun álagsins kom nokkuð á óvart í ljósi tilkynningar matsfyrirtækjanna S&P og Fitch Ratings í gær um breyttar horfur fyrir lánshæfismat íslenska ríkisins, íslensku viðskiptabankanna, Íbúðalánsjóð og Landsvirkjun,“ segir í Vegvísi.

Í tilkynningum þeirra voru horfur fyrir langtímaskuldbindingar breytt úr stöðugum í neikvæðar en horfur fyrir skammtímaskuldbindingar héldust áfram stöðugar.