Vegvísir Landsbankans greinir frá því í dag að skuldatryggingarálag íslenskra banka hefur verið á hraðri niðurleið í þessari viku. Um leið hefur Iltraxx fjármálavísitalan sem mælir skuldatryggingarálag fjármálafyrirtækja almennt lækkað. Þróun álags íslensku bankanna fylgir því almennri þróun í bankageiranum. Í fréttinni kemur fram að Financial Times hafi greint frá því að stórir fjárfestingabankar vinni að því að stofna uppgjörsaðila (e. clearing house) sem hefði það hlutverk að samþykkja eða synja viðskiptum með skuldatryggingar. Undanfarin ár hafa þátttakendur á skuldatryggingamarkaði verið á móti formlegu regluverki, en í ljósi atburða á markaði, svo sem falli fjárfestingabankans Bear Stearns, hefur komið nýtt hljóð í strokkinn. Með þeim reglubreytingum sem fjárfestingabankarnir leggja til er ætlunin að takmarka áhættu þeirra sem taka þátt í skuldatrygginga- og skuldabréfamarkaði. Við núverandi aðstæður er hætta á að markaður skuldatryggingaálags geti magnað upp áhrif greiðslufalls stórra aðila, þar sem óvíst er um greiðsluhæfi þeirra sem selt hafa tryggingar og skyndileg aukin áhættufælni gæti haft keðjuverkandi áhrif á þá sem halda á skuldatryggingum eða skuldabréfum, segir í frétt Vegvísis.