Skuldatryggingarálag Kaupþings [ KAUP ] til 5 ára hefur fallið um 70 punkta í morgun við þessi tíðindi en álagið stóð í 733 punkta í gær, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Kaupþing tilkynnti í morgun um að hafa tryggt sér langtímafjármögnun upp á 1,3 milljarð evra eða um 111 milljarð íslenskra  króna.Fram kemur í fréttatilkynningu Kaupþings að kjörin á fjármögnuninni eru umtalsvert lægri en núverandi skuldatryggingaálag bankans. Þá segir að lánin falli á gjalddaga frá einu ári upp í sjö og hálft ár.

„Fastlega má búast við að álagið dragist meira saman þegar líða tekur á daginn. Skuldatryggingaálag hinna bankanna mun líklega fylgja með enda sýnir reynslan að álag á skuldatryggingar allra íslensku bankanna fylgist að," segir greiningardeildin.

„Þá má einnig búast við því að útgáfan hafi jákvæð áhrif á hlutabréfamarkað enda hefur sú mikla óvissa sem hefur umlukið fjármögnunarmál bankanna átt þátt í að draga markaði niður. Útgáfa Kaupþings bendir til þess að þvert á það sem sagt hefur verið í erlendum fjölmiðlum geta íslensku bankarnir sótt sér fé á markað og að skuldatryggingarálagið endurspeglar ekki þau raunverulegu kjör sem bönkunum bjóðast," segir hún.