Skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa lækkað um helming á fimm árum, segir í frétt frá fjármálaráðuneytinu.

Í frétt sembirtist í vefriti fjármálaráðuneytisins segir að í lok árs 2001 hafi skuldir ríkissjóðs numið 40% af vergri landsframleiðslu en í árslok 2005 um 20%. "Á sama tíma hafa erlendar skuldir lækkað um 67%, frá því að vera rúmlega 26% af VLF í árslok 2001 í tæplega 9% um sl. áramót. Heildarskuldir ríkissjóðs námu í árslok 2005 196,5 milljörðum króna, þar af námu erlendar skuldir 85,5 milljörðum króna."

Fjármálaráðuneytið segir að erlendar skuldir hafi verið greiddar niður eftir því sem "aðstæður hafa leyft með því að nota andvirði einkavæðingar og greiða afborganir ríkissjóðs. Hlutfall erlendra skulda af heildarskuldum hefur því lækkað jafnt og þétt, frá því að vera rúmlega 66% í árslok 2001 í rúmlega 43% í árslok 2005. Mest var þó lækkunin á árinu 2005." Lækkunin á liðnu ári skýrist af styrkingu krónunnar og uppgreiðslum á skuldum.

Alls voru erlendar skuldir greiddar niður um 48 milljarða króna á síðasta ári. Ríkissjóður á um níu milljarða króna á innlendum gjaldeyrisreikningum en þeir fjármunir verða notaðir til greiðslu erlendra lána, en alls eru erlend lán á gjalddaga á þessu ári um 20 milljarðar. Ekki er gert ráð fyrir að þau lán verði endurfjármögnuð og því mun hlutfall erlendra skulda af heildarskuldum ríkissjóðs halda áfram að lækka, segir ráðuneytið.