*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 2. nóvember 2013 12:25

Skuldir Símans minnka um helming

Við endurskipulagningu Skipta, móðurfélags Símans, lækkuðu vaxtaberandi skuldir Símans. Eiginfjárhlutfallið nú um 64%.

Bjarni Ólafsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Skuldir Símans eru nú aðeins brot af því sem þær voru um síðustu áramót, en Skipta- samstæðan lauk í sumar fjárhagslegri endurskipulagningu. Hún fól í sér að skuldabréfum var skipt fyrir hlutafé í Skiptum og öllum kröfum Arion banka, sem ekki voru hluti af forgangsláni félagsins, var sömuleiðis breytt í hlutafé.

Þar til nú hefur ekki komið fram hver áhrif endurskipulagningarinnar voru á dótturfélagið Símann, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu eru vaxtaberandi skuldir Símans nú 13.400 milljónir. Um síðustu áramót voru langtímaskuldir félagsins 27,7 milljarðar króna og heildarskuldir voru 47,9 milljarðar. Eiginfjárhlutfall Símans er eftir endurskipulagninguna 64,3% samkvæmt sömu upplýsingum. Athuga ber að í þessari grein er átt við móðurfélagið Símann hf. en ekki Síma-samstæðuna.

Í ljósi þess að hrein fjármagnsgjöld Símans voru í fyrra 7,4 milljarðar króna ætti þessi skuldalækkun að hafa umtalsverð áhrif á afkomu félagsins á þessu og næsta ári. Í fyrra skilaði Síminn 4,2 milljarða króna tapi þrátt fyrir ágætan rekstrarhagnað og réð fjármagnskostnaður þar mestu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .

Stikkorð: Síminn Skipti