Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, dragi of víðtækar ályktanir af þeim forsendum sem hann gefur sér um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að endurákvarða ekki 13 milljarða króna í skatta á Stoðir hf., áður FL Group.

Grein Jóns Steinars birtist í gærmorgun í Morgunblaðinu í gær og svarar Skúli Eggert honum í sama blaði í dag. Málið snýst um það hvort FL Group hafi verið heimilt að fresta 50 milljarða króna hagnaði, sem varð til vegna hlutabréfasölu árið 2006. Frestunin gerði það að verkum að hagnaður FL Group var nær enginn það ár og því enginn skattur greiddur.

Í grein Skúla Eggerts segir að meginstarfsemi FL Group hafi á þessum tíma verið að fjárfesta í flugrekstri og ferðaþjónustu. Þannig voru hlutabréf í erlendum flugfélögum uppistaðan í þeim fjárfestingum sem leiddu til söluhagnaðarins sem frestað var. Skúli segir að embættið hafi ekki talið, miðað við fyrirliggjandi skattframkvæmd, að neinar forsendur væru til að hafna frestun söluhagnaðar enda hefði þá orðið alvarleg mismun á milli aðila í sambærilegri stöðu. „Niðurstaða ríkisskattstjóra var sú að hluteigandi skattaðili hafði í meginatriðum keypt hlutabréf í sambærilegum rekstri og hann starfaði sjálfur í og því væri um að ræða fjárfestingu hlutaðeigandi aðila. Átti hann þá rétt á þeim frestunarheimildum sem ákvæði skattalaga gerðu ráð fyrir,“ segir í grein Skúla.

Annmarkar á rannsókn Skattrannsóknarstjóra

Hann segir að í grein Jóns Steinars sé gefið til kynna að ómálefnaleg sjónarmið ráði aðgerðum ríkisskattstjóra í máli þessu. Það sé ekki rétt. Þá sé einnig ástæða til að taka fram að samkvæmt tekjuskattslögum beri ríkisskattstjóra að úrskurða samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og á grundvelli gildandi réttar. Þar skipti beinar lögskýringar meginmáli og ótækt að úrskurðað sé framteljanda í óhag í þeim tilgangi einum að láta reyna á álitamál sem ríkisskattstjóri telur að sé ekki samkvæmt lögum. Slíkt væri í beinni andstöðu við allar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins, svo sem meðalhófsregluna og þá meginreglu sem gildi í opinberu réttarfari en gæti alveg eins gilt í skattarétti, in dubio pro reo, sem hafi löngum verið talið að stæði öðrum reglum réttarfarsins framar.

Þá segir í grein skúla að annmarkar hefðu verið á framhaldsrannsókn skattrannsóknarstjóra. Hún hafi verið óvenjuleg og send með bréfi og nokkrum fylgiskjölum en ekki í skýrsluformi eins og áskilið sé í reglugerð. Þá hafi Stoðum ekki verið gefið færi á því að tjá sig um niðurstöður framhaldsrannsóknarinnar í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga og reglugerðarinnar.

Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson
© BIG (VB MYND/BIG)
Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómarinn fyrrverandi.