*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 16. nóvember 2011 19:30

Skýrr kaupir allt hlutafé í Thor Data Center

Forstjóri Skýrr segir sóknarfæri á sviði gagnavera á erlendum mörkuðum.

Ritstjórn
vb.is

Skýrr hefur keypt 100% hlutafjár í gagnaverinu Thor Data Center, sem starfrækt er í Hafnarfirði. Thor Data Center var áður í eigu Skúla Mogensen og annarra fjárfesta. Stærsti viðskiptavinur Thor Data Center er norski hugbúnaðarrisinn Opera Software. Fjárfestingin er gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun.

Í tilkynningu er haft eftir Gesti G. Gestssyni, forstjóra Skýrr, að fyrirtækið sé í dag norrænt upplýsingatæknifyrirtæki með 1.100 starfsmenn í fjórum löndum. Lengi hafi verið hugað að uppbyggingu gagnavers hér á landi, enda séu mikil sóknarfæri á þessu sviði á erlendum mörkuðum auk þess sem Skýrr búi að eigin söluneti í Noregi og Svíþjóð.

Gestur segir að verkefni gagnavera eins og Thor Data Center geti skapað þjóðinni miklar gjaldeyristekjur, sem hljóti að vera mikilvægt atriði fyrir uppbyggingu atvinnulífsins alls. Kaupverð er ekki gefið upp.

Stikkorð: Skýrr Thor Data Center