Skilum á ítarlegri skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young hefur unnið að fyrir þrotabú Milestone hefur verið frestað til 15. mars.

Fyrirtækið er að kanna hvaða gjörningar sem stjórnendur Milestone létu framkvæma geti mögulega verið riftanlegir.

Ernst & Young vann upphaflega skýrslu um málið fyrir nauðasamningsumleitanir Milestone snemma á síðasta ári. Grímur Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Milestone, fékk það síðan til að vinna ítarlegri skýrslu um gjörningana eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í september síðastliðnum.

Upphaflega átti sú skýrsla að vera kynnt á kröfuhafafundi í desember en birtingu hennar var þá frestað fram til 25. janúar. Á kröfuhafafundi síðastliðinn mánudag var kynningu á skýrslunni aftur frestað og mun hún fara fram 15. mars.

Lýstar kröfur í bú Milestone nema um 95 milljörðum króna og er skilanefnd Glitnis langstærsti kröfuhafinn.