„Okkur grunaði að þetta væri svona slæmt en þetta hljóta að vera enn betri sannanir fyrir okkur, betri gögn,“ segir Þórunn Einarsdóttir, formaður samtaka stofnfjáreigenda í Sparisjóðnum í Keflavík, um fréttir af skýrslu PwC um starfsemi sjóðsins fyrir hrun. Er greint frá þessu i Morgunblaðinu.

Sparisjóðurinn í Keflavík afskrifaði sjö milljarða króna og færði niður útlán fyrir rúma átján milljarða króna síðustu tvö árin fyrir fall bankans. Einnig voru háar fjárhæðir lánaðar starfsmönnum, stjórnendum og félögum þeim tengdum án trygginga, að því er fram kemur í skýrslu PWC.

„Stofnfjáreigendur áttu 16 milljarða króna. En svo er það náttúrlega spurning ef við vinnum málið hvort við erum þá bara að hækka skatta hjá almenningi. Þetta er allt tapað hjá sparisjóðnum og bara hægt að fá peningana til baka frá ríkinu. En við viljum athuga hvort hægt er að fá eitthvað út úr þessum rándýru tryggingum fyrir starfsmenn sem voru borgaðar í mörg ár. Auk þess voru afskrifaðar skuldir hjá starfsmönnum.“ Stofnfjáreigendur hafa ekki fengið að sjá skýrsluna ennþá.