Sádí-­Ar­ab­ía, Egypta­land, Barain og Sam­ein­uðu arab­ísku fursta­dæmin hafa slitið stjórnmálasambandi sínu við Katar, þetta kemur m.a. fram á vef CNN fréttastofunnar. Ástæðan er sögð stuðningur Katar við hryðjuverkahópa og samtök á borð við Bræðralag múslima, Íslamska ríkið og Al Kaída sem vinni gegn hagsmunum Arabíuskagans og valdi óstöðugleika á svæðinu.

Stjórn­völd í Katar fordæma ásökunina og segja ekkert hæft í ásökununum en að þeirra sögn er nú unnið hörðum höndum að því að koma í veg fyrir skaða á samfélagi og efnahag landsins.

Loka öllum landamærum

Aðgerðirnar fela m.a. í sér að lokað hefur verið öllum landamærum Sádí-Arabíu sem liggja að Katar sem og lokað fyrir allar ferðir yfr sjó og í lofti. Þá hafa Egyptar bannað alla umferð í gegnum hafnir sínar og flugvelli innan landsins.

Sádar hafa auk þess rekið Katar úr hernaðarbandalagi sem myndað var vegna átakanna í Jemen og sendifulltrúum Katar í Sádi Arabíu hefur verið veittur tveggja daga frestur til að yfirgefa landið.