„Það er þessar hefðbundnu upplýsingar um kröfur, hvaða ákvarðanir hafa verið teknar og hvar við erum stödd í nauðasamningaferlinu,“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis um hvað verði tekið fyrir á kröfuhafafundi Glitnis í dag, fimmtudag.

Fundurinn hefst í hádeginu og fer fram á Hótel Hilton Nordica eftir því sem fram kemur á heimasíðu slitastjórnar bankans. Um er að ræða þriðja fund slitastjórnarinnar með kröfuhöfum á þessu ári. Eingöngu þeir aðilar sem teljast kröfuhafar er boðið á fundinn en búast má við að kröfuhafar verði upplýstir um þróun verðmats og endurheimta á eignum gamla bankans og hvort einhverjar greiðslur til kröfuhafar séu væntanlegar á næstunni.