Samningafundur í kjaradeilu VR og Samtaka atvinnulífsins, sem haldinn var í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag, 19. maí, var árangurslaus, að því er segir í fréttatilkynningu frá VR.

Þar segir að Upp úr viðræðum hafi slitnað á sjötta tímanum þar sem VR sé ekki tilbúið til viðræðna um hugmyndir SA að breytingum á vinnutímafyrirkomulagi. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður í deilunni.

Félagsmenn VR samþykktu í atkvæðagreiðslu sem lauk í dag að boða til verkfallsaðgerða sem hefjast í lok mánaðarins, verði ekki samið fyrir þann tíma.