Allir sitja á dóti sem þeir ýmist nota ekki lengur, fylla geymsluna eða vantar aur í tóma buddu. Auðugir einstaklingar eru þar engir eftirbátar meðaljónsins. Eini munurinn á dótinu sem kaupa má í algengustu vefsíðunum er sá að hlutirnir sem þeir ríku eru að reyna að losa sig við er alls ekkert smádrasl. Þeir sem eru á lista yfir notendur smáauglýsinga Bloomberg eru eftir því engin smápeð. Þvert á móti eru þar stjórnendur í bönkum og fjármálafyrirtækjum, vogunarsjóðsstjórar og þess háttar spaðar.

Netmiðillinn Buzzfeed fjallar um málið og segir að árskortið hjá smáauglýsingum Bloomberg, sem kallast Posh, kosti 20 þúsund dali á ári. Það gera tæpar 2,3 milljónir króna. Til samanburðar má geta þess að ekkert kostar fyrir Íslendinga að skrá sig á Brask og brall á Facebook.

Í smáauglýsingum Bloomberg má finna ýmsar vörur af hinum og þessum stærðum í efri verðflokkum. Þar á meðal eru Rolexúr, demantshringir, villur í Evrópu og fokdýrir bílar.

Á meðal þess sem Buzzfeed telur upp að megi finna í smáauglýsingum Bloomberg er kastali á Ítalíu sem reistur var á 16. öld. Á hann eru settar 20 milljónir evra eða þrír milljarðar króna. Þá er þar Mercedes C63 AMG á 175 þúsund dali. Eigandi bílsins setur á hann 175 þúsund dali eða 20 milljónir króna. Bíllinn er staðsettur í London en þangað voru fluttir aðeins 60 bílar af þeim 600 sem framleiddir voru á sínum tíma.

Þeir sem hafa ráð og áhuga á að kaupa notað geta skoðað smáauglýsingarnar nánar á vef Buzzfeed .

Hér má sjá auglýsingu um bílinn í smáauglýsingum Bloomberg og aðra af bíl sömu gerðar og þar er nefndur.