Félagið Smáey sem var í eigu Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, var tekið til gjaldþrotaskipta í héraðsdómi Suðurlands 11. október síðastliðinn. Magnús var umsvifamikill fjárfestir í gegnum Smáey, sem var m.a. móðurfélag Bergeyjar eignarhaldsfélags sem átti Toyota-umboðið, innflutningsfyrirtækið Gísla Jónsson og Yamaha á Íslandi. Bergey var sömuleiðis í ábyrgð vegna annarra félaga í eigu Magnúsar. Þar á meðal voru Bílaleiga Flugleiða, M. Kristinsson, Sólning í Kópavogi, TMH á Íslandi, Motormax og Pizza Pizza (móðurfélag Dominos á Íslandi). Þá var Smáey móðurfélag félagsins Suðurey sem átti 43% hlut í fjárfestingarfélaginu Gnúpi.

Á meðal annarra eigna félagsins voru 85% hlutur í útgerðinni Bergur-Huginn, Egilsdalur ehf og fleiri félögum.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að búið er að skipta um nafn á Smáey og heitir þrotabúið Vetrarmýri í dag. Skiptastjóri hefur verið skipaður yfir þrotabú Vetrarmýri og auglýsir hann eftir kröfum í búið.

Magnús kom illa út úr hruninu efnahagslífsins haustið 2008 og sagði í kjölfar sölu á útgerðinni Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum til Síldarvinnslunnar á Neskaupsstað í fyrra að hann hafi verið fórnarlamb markaðsmisnotkunar stjórnenda gamla Landsbankans.