Drekinn Smákur, sem Bilbó og dvergarnir þrettán takast á við í bókinni Hobbitinn eftir J.R.R. Tolkien, er ríkasti skáldsagnaauðjöfur heimsins, að mati tímaritsins Forbes. Forbes tekur á hverju ári saman lista yfir auðugustu skáldskaparpersónurnar, en þær verða að vera frægar fyrir auð sinn til að komast á listann.

Er gullhrúga Smáks talin vera 62 milljarða dala virði, en sú tala er fengin með því að reyna að giska á stærð drekans og þar með gullhrúgunnar. Athygli vekur að Jóakim Aðalönd er dottinn af listanum, en það er vegna þess að í nýlegri sögu tapaði hann öllu sínu í veðmáli við erkióvininn Gull-Ívar Grjótharða. Aðrir á listanum eru t.d. hr. Burns, eigandi kjarnorkuversins í Springfield og vinnuveitandi Homers Simpson, og Bruce Wayne, betur þekktur sem leðurblökumaðurinn.

Í tengdri grein á Forbes.com er farið yfir það hvernig reynt var að slá á stærð drekans Smáks og þar með á stærð gullhrúgunnar undir honum. Ekki er hægt að fara ítarlega í það hér hvernig útreikningarnir fóru fram, en gull og silfur í haugnum er talið 14,7 milljarða dala virði, demantar 3,9 milljarða virði, gull og silfur í öðrum haugum í helli drekans um 29,4 milljarða virði, vopn og brynjur 1,1 milljarða virði og annað ónefnt í hellinum um 500 milljóna virði.