Sala á internetinu jókst um 35% í Bretlandi á síðasta ári og nam 14,7 milljörðum punda, eða um 2200 milljörðum íslenskra króna. Verdict Research búast við því að þessi mikli vöxtur í smásölu á netinu haldi áfram og að hún verði 44,9 milljarðar punda árið 2012. Gangi það eftir verður smásala á netinu 13,8% neyslu á netinu. Í skýrslu Verdict Research kemur fram að meira en helmingur 4.059 manns sem svöruðu könnun þeirra nefnir hentugleika og þægindi sem aðalástæðu þess að þeir versla á netinu.

„Litið er á internetið sem ódýra og hentuga leið til að finna lægri verð og tilboð,“ hefur Retail week eftir greinanda Verdict Research. „Neytendur eru að verða vanari því að versla á netinu og seljendur eru að auka vægi netverslunar.“ Samkvæmt frétt Retail week um málið var sala á raftækjum og matvöru tæplega helmingur allrar smásölu á netinu á síðasta ári.