*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 28. nóvember 2020 13:31

Smithætta ekki næg ástæða til bóta

Neytendur hafa látið reyna á gildissvið forfallatrygginga sinna en ekki alltaf haft erindi sem erfiði gegn tryggingafélögunum.

Jóhann Óli Eiðsson

Gildissvið og skilmálar forfallatrygginga rötuðu ítrekað inn á borð úrskurðarnefndar í vátryggingamálum (ÚRVÁ) það sem af er ári sökum heimsfaraldurs COVID-19. Rýni á úrskurðum nefndarinnar bendir til þess að neytendur hafi ekki alltaf haft erindi sem erfiði fyrir nefndinni og að möguleg smithætta sé ekki næg ástæða til að aflýsa ferð og vera heima.

Í úrskurði frá því í ágúst á þessu ári höfðu hjón pantað sér skíðaferð til Ítalíu rétt rúmlega ári fyrr og greitt fyrir hana 438 þúsund krónur. Maðurinn hafði skömmu áður gengist undir krabbameinsmeðferð og í nóvember fór konan að finna fyrir særindum í hálsi. Í febrúar afréð hún að fara ekki í ferðina að læknisráði og vildu þau fá ferðina bætta úr forfallatryggingu sinni.

Tryggingafélag hjónanna féllst á að bæta konunni ferðina að svo miklu leyti sem inneignarnóta ferðaskrifstofunnar gerði það ekki. Tjón mannsins fékkst aftur á móti ekki bætt enda hafði hann afráðið að bóka ferðina þrátt fyrir meðferðina. ÚRVÁ féllst á rök félagsins og taldi að hjónin ættu rétt á að fá fjórðung tjóns síns bættan. Þar eð ferðaskrifstofan hafði þegar boðið inneignarnótu sem því nam áttu þau ekki rétt á frekari bótum úr tryggingu sinni.

Í öðru máli afbókaði astmasjúklingur golfferð til Tenerife sökum fjölda smita þar ytra og vildi hann fá tjón sitt bætt af vátryggingafélagi sínu. Félagið hafnaði bótaskyldu þar sem hættan á því að smitast af Covid gæti ein og sér ekki leitt til þess að til hennar stofnist og að samkvæmt skilmálum tryggingarinnar geti „tjón sem stafi af tregðu vátryggðs til að ferðast“ ekki fengist bætt. Að mati nefndarinnar stafaði tjónið af sjúkdómi sem maðurinn þjáðist af við bókun ferðarinnar og fékkst tjón hans því ekki bætt.

Gátu farið á annað hótel

Annað mál varðaði golfferð til Tenerife en í janúar í fyrra höfðu hjón greitt 783 þúsund krónur fyrir slíka ferð sem áætluð var 3.-14. mars. Maðurinn veiktist í febrúar og til að bæta gráu ofan á svart áttu þau að gista á hóteli því sem þekkt varð á Íslandi sem „Covid-hótelið“. Ferðaskrifstofan vildi ekki endurgreiða þeim og reyndu þau að fá tjónið bætt úr forfallalið ferðatryggingar sinnar.

Félagið hafnaði bótaskyldu á því að samkvæmt læknisvottorði hefði maðurinn verið með berkjubólgu frá desember 2019. Var einnig byggt á því að ferðatakmarkanir hefðu ekki verið í gildi og að fólkinu hefði staðið til boða að gista á öðru hóteli en þau hafnað því. Að mati nefndarinnar var tjón mannsins ekki undanskilið í skilmálum tryggingarinnar og fékk því hans hlutur bættur. Tjón eiginkonu hans fékkst aftur á móti ekki bætt þar sem veikindi mannsins þóttu ekki svo alvarleg að það stæði því í vegi að hún færi án hans. Áttu þau því rétt á 350 þúsund krónum úr tryggingu sinni.

Hjón, sem ætluðu með börn sín til Kanada í júní, lentu einnig í stappi við sitt vátryggingafélag. Flugi þeirra var aflýst og í stað endurgreiðslu bauð flugfélagið þeim 24 mánaða inneignarnótu. Hafnaði félagið því að greiða bætur þar sem ferðin fengist endurgreidd. Fólkið undi þessu ekki enda alls kostar óvíst hvenær og hvort umrætt félag flýgur á ný til landsins. Nefndin taldi á móti að þeim hefði staðið til boða full endurgreiðsla í formi inneignarnótu og því ættu þau ekki rétt á bótum úr forfallatryggingu.

Sjálfsábyrgð allra eða bara greiðanda?

Í nokkrum tilfellum var deilt um umfang sjálfsábyrgðar vátryggingartaka. Í einu máli höfðu hjón ákveðið að kaupa þriggja vikna ferð til Bandaríkjanna, fyrir sig, börn, tengdabörn og barnabörn, í tilefni af stórafmæli sínu og leigt hús ytra sökum þess. Ferðin féll niður vegna ferðatakmarkana og hélt leigusali hússins þriðjungi leigunnar eftir. Kröfðust þau að fá þau útgjöld bætt.

Vátryggingafélagið féllst á tjón þeirra en dró frá bótafjárhæðinni sjálfsábyrgð að upphæð 15 þúsund krónur. Ekki nóg með að það væri gert vegna vátryggingatakans sjálfs heldur fyrir hvern og einn einstakling sem ætlaði í ferðina. Alls voru ellefu á leið vestur yfir haf, samanlögð ábyrgð því 165 þúsund krónur en það var meira en tjónið sem af hlaust. Þessu vildi maðurinn ekki una og taldi að það ætti ekki að breyta neinu þótt fleiri hefðu ætlað að vera með í för. Félagið taldi á móti að tryggingin næði til allra sem væru með í för og því ætti sjálfsábyrgðin einnig við um hvern og einn haus. ÚRVÁ hafnaði rökum félagsins og taldi því að aðeins ætti að draga eina sjálfsábyrgð, en ekki ellefu, frá tjóni mannsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér