Rússar fullyrða að smyglarar noti falsaðar upprunamerkingar frá Íslandi til þess að smygla evrópsku kjöti inn í landið. Þetta kemur fram í umfjöllun á vef Global Meat News , sem fréttastofa RÚV greindi fyrst frá.

Þar kemur fram að stór hluti smyglkjöts til Rússland sé merktur með uppruna frá annað hvort Sviss eða Íslandi. Frá áramótum hafi skoðun á 40 upprunamerkingum frá Íslandi leitt í ljós að 39 þeirra reyndust falsaðar.

Rússar hafa lagt bann við innflutningi frá nær öllum þjóðum Evrópu, en Ísland og Sviss eru þar undanskilin. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra kúabænda, segir í samtali við RÚV að innflutningsbannið hafi bitnað mjög illa á bændum í Evrópu.

Fram kemur í fréttinni að Rússar íhugi nú að leggja innflutningsbann á Ísland og Sviss vegna smyglsins.