Búið er að loka JFK flugvelli í New York vegna snjóstorms sem herjar nú á austurströndina. Nú þegar hafa 15 sentimetrar af snjó fallið í Central Park og rúmlega 38 sentimetrar fallið í Boston.

Stormurinn, sem er kallaður Hercules, hefur valdið miklum truflunum. Miklar frosthörkur og ófærð fylgja óveðrinu. Á CNN kemur fram að í gær hafi 2600 flugferðum verið aflýst. Það sem af er degi í dag er búið að aflýsa 1800 flugferðum. Stormviðvörun er í gildi í miðvesturríkjunum og á austurströndinni.

Bill de Blasio, nýr borgarstjóri New York borgar, hvetur íbúa borgarinnar til að vera alls ekki á ferðinni í bílum sínum og líta inn til nágranna sinna sem gætu þurft á aðstoð að halda vegna óveðursins.