Hagnaður Sparissjóðs Kópavogs á fyrri hluta ársins nam 135 milljónum króna og jókst um 285% milli tímabila. Arðsemi eigin fjár var 39,0% á ársgrundvelli, sem er hæsta arðsemi í sögu sparisjóðsins. Arðsemin var 11,3% á sama tímabili 2004.

Hreinar rekstrartekjur námu 399 m.kr. samanborið við 271 m.kr. á sama tímabili 2004. Hreinar vaxtatekjur námu 215 m.kr. samanborið við 143 m.kr. á sama tímabili 2004.

Kostnaðarhlutfall á fyrri árshelmingi 2005 var 53,0% samanborið við 71,7% á sama tímabili 2004.

Framlag í afskriftareikning útlána nam 43 m.kr. samanborið við 34 m.kr. á sama tímabili 2004. Afskriftareikningur, reiknaður af útlánum og veittum ábyrgðum, er 1,2%.

Heildareignir SPK námu 13.730 m.kr. 30. júní samanborið við 10.870 m.kr. í árslok 2004, sem er 26,3% aukning. Á tólf mánuðum frá 30. júní 2004 hafa heildareignir SPK aukist um 5.185 m.kr. eða 60,7%.

Útlán námu 9.736 m.kr. 30. júní, hafa aukist um 18,0% frá áramótum eða um 1.484 m.kr.

Innlán námu 7.533 m.kr. 30. júní samanborið við 6.571 m.kr. í árslok 2004 og er aukningin 962 m.kr. eða 14,6%.

Á eignahlið hafa kröfur á lánastofnanir aukist um 1.089 m.kr. frá áramótum en á skuldahlið hefur lántaka SPK auk víkjandi lána aukist um 1.826 m.kr.

Eigið fé 30. júní nam 775 m.kr. og var eiginfjárhlutfall á CAD grunni 13,7% en samkvæmt lögunum má hlutfallið ekki vera lægra en 8,0%.