Kínverskir stýrivextir hafa verið lækkaðir um 0,15 prósentustig í 4,45% til að bregðast við þungu höggi strangra sóttvarnaraðgerða á efnahagslífið.

Lækkunin er sú mesta síðan núverandi peningamálakerfi var komið á fyrir 3 árum síðan og hefur bein áhrif á fimm ára húsnæðislán. Ákvörðunin er tekin af nefnd sem skipuð er kínverskum bönkum og síðan gefin út af Seðlabankanum.

Umfang vaxtalækkun var umfram spár greiningaraðila, sem þó höfðu búist við lækkun eftir útgáfu hagtalna í vikunni sem sýndu ört versnandi ástand hagkerfisins.

Velta í smásölu féll um 11% milli ára í apríl vegna ítrekaðra og langvarandi útgöngubanna sóttvarnaryfirvalda í samræmi við stífa stefnu stjórnvalda um að halda kórónuveirunni alfarið í skefjum með öllum tiltækum ráðum. Iðnaðarframleiðsla féll um 3% eftir samfellda aukningu frá því í ársbyrjun 2020 við upphaf faraldursins.

„Aðgerðin er sú veigamesta og felur í sér sterkustu skilaboð um vilja til að styðja við húsnæðismarkaðinn í mörg ár,“ er haft eftir greiningu frá bankanum Citibank í frétt Financial Times um málið.