*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 3. júlí 2021 14:21

Söguleg sala hjá Hval

Hvalur hefur selt allt sitt í Origo, áður Nýherja, eftir að hafa verið meðal stærstu hluthafa frá stofnun félagsins fyrir 29 árum.

Ritstjórn
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf.
Haraldur Guðjónsson

Hvalur hf. og önnur félög sem tengjast Kristjáni Loftssyni seldu í vikunni allan hlut sinn í Origo. Um var að ræða rúmlega 60 milljón hluti að nafnvirði, rúm 13% af útgefnum bréfum í félaginu. Salan fór fram á genginu 48 krónur á hlut, tæpum fjórum krónum undir dagslokagengi félagsins í fyrradag, og nam salan tæplega 2,9 milljörðum króna.

Lýkur þar með tæplega þriggja áratuga sögu Hvals og tengdra félaga sem stærstu hluthafa í félaginu. Origo hét áður Nýherji, en félagið varð til árið 1992 með samruna IBM á Íslandi og Skrifstofuvéla. Stærsti hluthafi hins sameinaða félags var Eignasamlag Draupnissjóðsins og Vogunar sf. með 35% hlut. Þegar Nýherji fór á markað árið 1995 átti Vogun, dótturfélag Hvals, 18,9%. Auk Hvals seldi Eldkór ehf., í eigu Kristjáns og systur hans Birnu, hlut sinn og þá seldu systkinin bréf sem þau áttu persónulega.

Fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér


Stikkorð: Nýherji Hvalur Kristján Loftsson Vogun Origo