Gengi bréfa bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers hækkaði um 13% í dag eftir að sögusagnir fóru á kreik um að bankinn hygði á skráningu af markaði.

Lehman hefur lækkað um nánast 80% á þessu ári. Bréf bankans voru meðal fárra sem hækkuðu í viðskiptum dagsins, en Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði að veikur húsnæðismarkaður, lánsfjárþurrð og hækkandi orkuverð ógnuðu hagvexti verulega.

Ekki er vitað hvernig afskráningin færi fram eða yrði fjármögnuð, en öruggt þykir að forsvarsmenn Lehman íhugi möguleikann nú alvarlega. Talsmaður Lehman tjáði sig ekki um málið er hann var inntur eftir því.